Helgarferð

Fyrir um það bil mánuði síðan bað Ezekiel, kærasti minn, mig um að taka frá dagana 8. – 9. ágúst. Ég gerði það með glöðu geði, enda eigum við sambandsafmæli 9. ágúst. Hann neitaði að segja mér hvað við værum að fara að gera, hann vildi að það kæmi á óvart. Þetta spennti mig alveg gríðarlega upp þar sem ég vil að hlutir komi mér á óvart en á sama tíma er ég svo ofskaplega forvitin.

Fyrr en varði rann dagurinn upp og vissi ég ekkert ennþá. Ég hafði einungis fengið að vita hvað ég ætti að taka með mér og að þetta væri utan höfuðborgarsvæðisins. Að sjálfsögðu vaknaði ég snemma morguns og gat ekki sofnað aftur fyrir spenningi. Ég var eins og lítið barn á jólunum. Ég reyndi að stytta mér stundir í símanum og á Netflix þar til Ezekiel myndi vakna, en ég endaði svo bara á því að vekja hann af því að ég var svo óþolinmóð.

Áður en við lögðum af stað úr Reykjavík fórum við í Kringluna og leyfði ég honum að velja sér náttföt sem var hluti af minni gjöf, ég keypti mér einnig náttbol í stíl. Þá lögðum við loks af stað í óvissuferðina. Ezekiel vildi stoppa í Hveragerði á leiðinni og sagði að við værum svo langt á undan áætlun að hann vildi fá sér smá í gogginn þar. Gerðum við það og rúntuðum um Hveragerði. Eftir milljón spurninga frá mér stöðvar hann bílinn á bílastæði hjá Hótel Örk. Ég trylltist úr spenningi. Ég hafði aldrei gist á svona fínu hóteli áður og bara aldrei gist á hóteli á Íslandi yfir höfuð.

Við vorum svolítið snemma í því, innritunin var ekki fyrr en klukkustund síðar svo við ákváðum að taka rúnt til Þorlákshafnar þar sem hann tilkynnti mér að seinna þennan dag myndum við fara í fjórhjólaferð um ströndina þar. Þessi dagur varð bara sífellt betri. Við fórum til baka í innritun og fórum upp á herbergi. Það var svo gríðarlega fallegt og fínt og ég lét mig falla á rúmið eins og í kvikmynd.

Fljótlega lögðum við af stað til Þorlákshafnar fyrir fjórhjólaferðina. Við fengum allt sem við þurftum á staðnum: galla, hanska, stígvél og hjálma. Þetta var sjúklega gaman. Við Ezekiel skiptumst á að aka hjólinu þar sem leiðsögumennirnir gerðu ráð fyrir skiptum og myndatökum með því að stoppa nokkrum sinnum í ferðinni.

Eftir fjórhjólaferðina vorum við alveg uppgefin, þá sérstaklega ég, því skelltum við okkur strax í heita pottinn á hótelinu. Eftir sund fór ég upp á herbergi að mála mig, því jú, elsku strákurinn minn ætlaði víst líka að bjóða mér út að borða um kvöldið líka.

Veitingastaðurinn var á hótelinu og var álíka fínn og hótelið sjálft. Við pöntuðum matinn okkar og fengum brauðbollur til þess að borða á meðan við biðum. Ég var varla byrjuð á fyrsta brauðbollunni minni þegar þjónustustúlkan kemur aðsvífandi úr eldhúsinu með matinn til okkar. Nautasteikin mín var fullkomin og Ezekiel var einnig rosalega ánægður með lambakjötið sitt. Þjónustan var hröð og góð og gátum við pantað eftirrétt nánast um leið og við lögðum frá okkur hnífapörin. Eftirrétturinn var, líkt og aðalrétturinn, mjög góður.

Er við vorum komin upp á herbergi fórum við strax úr fínu fötunum og yfir í náttfötin sem ég hafði keypt fyrr um daginn. Horfðum við saman á myndina Tootsie með Dustin Hoffman og pöntuðum ostabakka. Bakkinn var komin í kringum klukkan 22:00 og gaf ég þá Ezekiel hinn hlutann af gjöfinni hans sem hann var mjög ánægður með. Vöktum við aðeins lengur og höfðum það kósý uppi í rúmi að horfa á myndir meðan við borðuðum osta og kex.

Daginn eftir fórum við á morgunverðarhlaðborðið á hótelinu og pökkuðum svo niður eftir það. Þessi helgi var frábær í alla staði og ég, litla ofdekraða prinsessan, hefði ekki getað orðið hamingjusamari.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s